Fjárfestingar í fyrirtækjum

Venture Legal getur annast alla lögfræðiráðgjöf, lögfræðilegar áreiðanleikakannanir, samningagerð og aðra skjalagerð í tengslum við fjárfestingar í fyrirtækjum, hvort sem sú fjárfesting fer fram með kaupum á útgefnu hlutafé, áskrift fyrir nýju hlutafé eða með öðrum hætti.

Þegar fjárfesta á í fyrirtæki eru yfirleitt töluverðir hagsmunir í húfi, bæði fyrir fjárfestinn, aðilann sem er að selja, félagið sjálft og, eftir atvikum, aðra hluthafa, sem koma til með að verða meðeigendur fjárfestis. Til þess að viðskiptin verði farsæl, þ.e. að allir aðilar gangi sáttir frá borði og enginn ágreiningur komi upp, er nauðsynlegt að vanda til verka, bæði í aðdraganda skjalagerðar og í skjalagerðinni sjálfri.

Höskuldur Eiríksson, eigandi Venture Legal, hefur annast lögfræðilegar áreiðanleikakannanir, skjalagerð og aðra lögfræðiþjónustu í tengslum við kaup og sölur fjölmargra fyrirtækja, allt frá litlum fyrirtækjum og upp í sum af stærstu fyrirtækjaviðskiptum á Íslandi.

Venture Legal leggur höfuðáherslu á að ganga úr skugga um að aðilar séu vel upplýstir um öll atriði sem máli skipta, að áhætta vegna viðskiptanna sé vel skilgreind og að skilmerkilega sé skjalfest hvernig aðilar hafa sammælst um að skipta áhættunni.

Fjármögnun fyrirtækja

Venture Legal getur annast alla lögfræðiráðgjöf og skjalagerð í tengslum við hvers kyns fjármögnun fyrirtækja, hvort sem um er að ræða útgáfu hlutafjár eða áskriftarréttinda, skuldabréfaútgáfu, með lánasamningum eða með öðrum hætti.

Augljóst er að gæði lánaskjala eru afar mikilvæg, bæði út frá hagsmunum lánveitanda og lántaka. Sú viðskiptalega áhætta sem lánveitandi tekur með lánveitingunni er að lántaki standi ekki við skuldbindingu sína um að greiða vexti eða endurgreiða höfuðstólinn og reynir þá á úrræði lánveitanda til að fá fullnustu kröfu sinnar, eftir atvikum með því að ganga að veðum eða öðrum tryggingum. Frá sjónarhóli lánveitanda eiga fjármögnunarskjöl að gera honum kleift að geta gripið til aðgerða fyrr en seinna ef illa fer, þó ekki væri til annars en að komast að samningaborðinu. Frá sjónarhóli lántaka eiga góð fjármögnunarskjöl að fela í sér skyldur sem eru vel framkvæmanlegar, þ.e. að á lántaka séu ekki lagðar ríkari skuldbindingar en svo að það sé raunhæft fyrir hann að geta uppfyllt þær. Þá þurfa fjármögnunarskjöl ekki síður að vera fyrirsjáanleg, þ.e. þau þurfa að vera nægilega skýr til að ekki leiki vafi á til hvers er ætlast af aðilum og hvaða atvik eða aðstæður geti leitt til viðbragða af hálfu lánveitanda og þá nákvæmlega hvaða viðbrögðum búast megi við.

Höskuldur Eiríksson, eigandi Venture Legal, hefur gríðarlega reynslu af lögfræðiráðgjöf og allri skjalagerð í tengslum við fjármögnun fyrirtækja. Allt frá árinu 2006 hefur Höskuldur reglulega veitt lögfræðiráðgjöf og komið að ýmiss konar lánasamningum og skuldabréfaútgáfum fyrirtækja, bæði skráðra og óskráðra skuldabréfa, og hefur bæði gætt hagsmuna lántaka og lánveitenda. Höskuldur er jafnframt höfundur bókarinnar Lánssamningar milli banka og fyrirtækja, sem kom út árið 2016 og hefur þróað form að íslenskum sambankalánssamningi, sem gjarnan er notaður af íslenskum bönkum.

Aðrar tegundir viðskiptasamninga

Venture Legal byggir á yfirgripsmikilli reynslu af gerð viðskiptasamninga af ýmsum toga og getur annast samningagerð á breiðum grundvelli.

Sem dæmi um samningstegundir, sem Venture Legal getur tekið að sér að gera, má nefna:
– Hluthafasamkomulög;
– Samninga um kaup/sölu á vörum og/eða þjónustu;
– Samstarfssamninga;
– Veð/tryggingarskjöl;
– Leigusamninga;
– Kaupsamninga um fasteignir;
– Ráðningarsamninga og starfslokasamninga;
– Kaupréttarsamninga;
– Trúnaðarsamninga;
– Leyfissamninga.

Önnur ráðgjöf á sviði fyrirtækjalögfræði

Venture Legal getur veitt aðra almenna lögfræðiráðgjöf og þjónustu á sviði fyrirtækjalögfræði.

Sem dæmi má nefna:
– Greiningu lögfræðilegra álitaefna;
– Ráðgjöf og skjalagerð varðandi félagaréttarleg málefni, svo sem hluthafa- og stjórnarfundi, starfsreglur stjórnar, starfskjarastefnu, breytingar á samþykktum o.fl.;
– Ráðgjöf í tengslum við fjárhagslega endurskipulagningu.